Lars Christensen hagfræðingur segir að erlendir fjárfestar þurfi ekki að fara á taugum þó að vinstri stjórn taki við völdum hér á landi. „Ísland verður ekki í grundvallaratriðum annað land en það er í dag,“ segir Lars í viðtali við Bloomberg .

Lars bendir hins vegar á að miklar launahækkanir geti haft hættur í för með sér, sem geti birst í hækkandi verðbólgu og breytingum á peningastefnunni. Lars segir að fjárfestar geti horft til vinstri stjórna á Norðurlöndunum. Á hinum Norðurlöndunum hafi reynslan verið að mið-vinstri stjórnir hafi tileinkað sér stefnu byggða á tiltölulega frjálsum markaði.

Vinstri grænir, Samfylkingin, Píratar og Framsóknarflokkurinn eiga nú í stjórnarmyndunarviðræðum, en samanlagt hafa flokkarnir 32 þingmenn og því minnsta mögulega meirihluta.

Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch bendir á að alls óvíst sé hvort stjórnarmyndunarviðræðurnar takist, og ekki sé útilokað að minnihlutastjórn taki við. Þá þurfi ný ríkisstjórn að takast á við hættuna af ofhitnun í ferðaþjónustu sem drifið hafi áfram hagvöxt en einnig ýtt upp húsnæðisverði.