Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður á ekki von á því að Bretar og Hollendingar fari í mál á hendur Íslendingum eftir sýknu í Icesave-málinu. „Bretar og Hollendingar geta ekki sótt málið eftir öðrum leiðum,“ sagði hann.

Lárus var fulltrúi stjórnarandstöðunnar í Icesave-samninganefndinni sem Lee Buchheit leiddi árið 2010 og gerði þá saminga sem felldir voru í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2011.

Um málið og sýknudóminn í morgun sagði Lárus m.a. í samtali við fréttastofu RÚV.:

„Menn hafa gengið býsna langt og hart gegn okkur á erfiðum tímum. Á sama tíma höfum við sýnt hógværð og stillingu. Við megum ekki hæla okkur of mikið og berja okkur á brjóst,“ sagði hann og benti á að næstu skref stjórnvalda séu að byggja upp traust í samskiptum við Breta og Hollendinga.