Lárus Ásgeirsson fékk greiddar 114 þúsund evrur, jafnvirði 17,6 milljóna króna, hjá Icelandic Group í fyrra. Lárusi var sagt upp störfum árið 2012 en þá hafði hann unnið hjá Icelandic Group í rétt rúmt ár. Til samanburðar námu árslaun hans hjá Icelandic Group árið 2012 182 þúsund evrur. Það svarar til rétt rúmlega 28,1 milljóna króna eða rétt rúmra 2,3 milljóna króna í laun á mánuði.

Netmiðillinn Undercurrent News , sem fjallar um málefni tengd sjávarútvegi og fiskiðnaði, greindi frá launum Lárusar í dag.

Bent er á það í umfjöllun Undercurrent News að Magnús Bjarnason, sem tók við starfi Lárusar, hafi verið með talsvert hærri laun en forveri sinn. Laun hans í fyrr ahafi numið 239 þúsund evrum eða sem svarar til 37 milljóna íslenskra króna. Það gera þrjár milljónir króna í mánaðarlaun. Bent er á að Magnús stýrir jafnframt fyrirtæki Icelandic Group í Bretlandi sem heitir Icelandic Seachill. Hann tók við stýrinu þar eftir að forstjórinn ytra hvarf óvænt á braut.