Lárus Finnbogason hefur látið af störfum sem formaður skilanefndar Landsbankans. Að sögn Páls Benediktssonar fjölmiðlafulltrúa skilanefndarinnar hafði Lárus íhugað í einhverjar vikur að láta af störfum en ákvörðun hafi hann ekki tekið fyrr en sl. föstudag. Páll segir að ástæður ákvörðunar Lárusar hafi verið þær að miklar annir hafi fylgt starfi formanns skilanefndar.

Truflar ekki

Spurður um áhrif þessa á þau mál sem unnið er að hjá skilanefnd, sérstaklega í tengslum við Icesave-mál, sem nú er að fara fyrir þingið, og endanlegan aðskilnað nýju og gömlu bankanna, sem áformaður er 17. júlí nk., sagði Páll það mat manna að þetta brotthvarf Lárusar truflaði þau ekki.

Ekki endilega þörf á að skipa nýjan í stað Lárusar

Hann sagði Lárus jafnvel þeirrar skoðunar að ekki þyrfti að skipa mann í hans stað, þar sem þeir fjórir sem eftir væru réðu vel við verkefnin, auk þess sem búið væri að skipa slitastjórn.

Páll sagði aðspurður að þokkaleg bjartsýni ríkti hjá Landsbankanum um að dagsetningin 17. júlí héldi og að þá næðist að skilja bankana endanlega að eins og FME hefur ákveðið að gert skuli. Hann sagði að núna væru nefndarmennirnir fjórir sem eftir væru í Lundúnum að ræða þau mál við kröfuhafa.