*

föstudagur, 22. nóvember 2019
Innlent 12. febrúar 2014 19:43

Lárus, Jóhannes og Þorvaldur ákærðir í Stím-málinu

Stím-málið er á meðal elstu mála sem hafa verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara.

Ritstjórn
Lárus Welding.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Glitni, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Saga Capital, hafa verið ákærðir vegna hlutdeildar í Stím-málinu svokallaða. 

RÚV greindi frá málinu í kvöld og segir það vekja athygli að Jakob Valgeir Flosason, sem var stjórnarformaður Stím, er ekki á meðal hinna ákærðu. Lárus hlaut ásamt Guðmundi Hjaltasyni níu mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfelld umboðssvik í Vafnings-málinu svokallaða á milli jóla- og nýárs árið 2012. 

Stím-málið snýst um það að Stím keypti hlutabréf í Glitni og FL Group fyrir tæplega 25 milljarða króna þann 14. nóvember 2007 af Glitni. Um 20 milljarðar króna voru fengnir að láni hjá Glitni og viðskiptin voru teiknuð upp af starfsmönnum bankans. Vildarviðskiptavinum var síðan boðið að leggja fram 10% eiginfjárframlag og vera með í Stím. Með þessu var Glitnir að tæma hina svokölluðu veltubók sína, en bankinn mátti ekki eiga meira en 5% hlut í sjálfum sér. Þar sem engin eftirspurn var eftir svona magni af hlutabréfum í félögunum tveimur voru búin til sýndarviðskipti til að virði hlutabréfanna myndu ekki lækka.

RÚV rifjar upp að Stím-málið hafi verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara síðan síðla árs 2009. Í tengslum við það réðst embætti í húsleitir og handtökur í nóvember árið 2010. 

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok febrúar.