Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga, dótturfélags Haga, keypti hlutabréf í smásölufyrirtækinu fyrir 5 milljónir króna á þriðjudaginn. Nánar tiltekið keypti hann 70 þúsund hluti á genginu 71,5 krónur á hlut, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Lárus átti fyrir 81 þúsund hluti í Högum samkvæmt ársreikningi samstæðunnar. Ætla má því að hann fari með 151 þúsund hluti í félaginu sem eru um 10 milljónir króna að markaðsvirði í dag. Lárus á einnig kauprétt að 850 þúsund hlutum í Högum.

Lárus hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Aðfanga frá árinu 1998. Fram að því var Lárus innkaupa- og markaðsstjóri matvöru hjá Hagkaup frá 1993, en hafði áður sinnt innkaupum og rekstri ávaxta- og grænmetislagers Hagkaups frá 1991 og innkaupum matvöru og sérvöru fyrir Hagkaup frá 1988.