*

föstudagur, 18. október 2019
Fólk 5. september 2018 09:57

Lárus leiðir skýjaráðgjöf Kolibri

Lárus Hermannsson hefur verið ráðinn til nýsköpunar- og hugbúnaðarfyrirtækisins Kolibri og mun leiða skýjaráðgjöf fyrirtækisins.

Ritstjórn
Lárus Hermannsson hefur meðal annars unnið að skýjavæðingu stærsta gagnabanka heims á sviði erfðafræði barnasjúkdóma, við Barnaspítalann í Fíladelfíu.
Aðsend mynd

Lárus Hermannsson hefur verið ráðinn til hugbúnaðarfyrirtækisins Kolibri, og mun leiða uppbyggingu á skýjaráðgjöf fyrirtækisins, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Lárus er sagður hafa mikla reynslu af skýjavæðingu stórra og flókinna hugbúnaðarverkefna, en hann gegndi áður stöðu upplýsingatæknistjóra hjá Center for Applied Geonomics við Barnaspítalann í Fíladelfíu, og leiddi þar meðal annars skýjavæðingu erfðarannsókna spítalans á Amazon Web Services.

„Það er mikill fengur að því að fá Lárus aftur hingað til lands. Fáir hafa jafn mikla sérfræðiþekkingu og hann á þessu sviði. Með Lárus í fararbroddi verður Kolibri enn betur í stakk búið til að aðstoða fyrirtæki við að færa tölvurekstur sinn í skýið. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær öll fyrirtæki verða búin að færa sig í skýið. Með því geta þau náð fram bæði sparnaði og umtalsverðri framleiðniaukningu við hugbúnaðarþróun. Það er mikil eftirspurn eftir ráðgjöf á þessu sviði og skýjaráðgjöfin verður dýrmæt viðbót fyrir bæði nýja og núverandi viðskiptavini Kolibri.“ er haft eftir Ólafi Nielsen, framkvæmdastjóra Kolibri.