Guðmundur Hjaltason og Lárus Welding voru dæmdir í níu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í svokölluðu Vafningsmáli. Sex mánuðir eru skilorðsbundnir. Lárus er fyrrverandi bankastjóri Glitnis og Guðmundur var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans.

Voru þeir ákærðir fyrir að hafa í störfum sínum, Lárus sem forstjóri og Guðmundur sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, báðir sem meðlimir í áhættunefnd bankans, misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í stórfellda hættu með lánveitingu bankans til Milestone í formi peningamarkaðsláns að fjárhæð 102 milljónir evra. Það samsvaraði tíu milljörðum króna á sölugengi evru á útborgunardegi, án trygginga eða ábyrgða og andstætt almennum reglum Glitnis banka hf. um lánveitingar og markaðsáhættu um hámark heildarlánveitinga til einstaks aðila og aðila honum tengdum.

Greiða um 5 milljónir í málsvarnarlaun

Lárus er dæmdur til að greiða skipuðum verjanda sínum rúmar fimm milljónir króna en fimm milljónir króna af málsvarnarlaunum greiðast af ríkissjóði. Guðmundi er gert að greiða rúmar 4,6 milljónir til skipaðs verjenda en sama upphæð greiðist úr ríkissjóði. Ástæðan fyrir því að ríkissjóður greiðir helming málsvarnarlauna er sú að tveir fyrrum starfsmenn sérstaks saksóknara hafa sætt kæru í tengslum við störf sín fyrir skiptastjóra þrotabús Milestone.

Dómarinn taldi að þar með ætti helmingur lögfræðikostnaðar að greiðast úr ríkissjóði.