Lárus Elíasson hefur verið ráðinn í starf fasteignastjóra Hörpu. Hann er með meistaragráðu í stjórnun fyrirtækja (MBA) auk meistaragráðu í vélaverkfræði  og hefur lengst af starfað sem stjórnandi í orkugeiranum, bæði innanlands og utan, við sölu, hönnun, smíði og gangsetningu virkjana.

„Það felast í því tækifæri að leiða fasteignasvið þessa einstaka húss. Harpa hefur þegar sannað gildi sitt og framundan eru mikilvæg verkefni sem tengjast fjölbreyttri starfsemi í húsinu. Ég hlakka til þess að leggja mitt af mörkum,“ er haft eftir Lárusi Elíassyni sem kemur til starfa í Hörpu 1. nóvember næstkomandi.

Lárus er kvæntur Ingibjörgu Óðinsdóttur og þau eiga fjögur börn og tvö barnabörn. Á meðal annarra starfa Lárusar má nefna margvísleg verkefni á sviði rekstrar og stjórnunar, úttekt og eftirlit með flugvöllum auk kennslu í verkefnastjórnun og rekstri fyrirtækja við HÍ.

Hlutverk Hörpu er að vera vettvangur fyrir tónlistar- og menningarlíf, sem og hvers konar ráðstefnur, fundi og samkomur, bæði innlendar og erlendar. Harpa er eitt helsta kennileiti Reykjavíkur og miðstöð menningar og mannlífs í hjarta miðborgarinnar. Starfsfólk Hörpu hefur einsett sér að Harpa verði í fremstu röð þegar kemur að vistvænum gildum og sjálfbærni. Höfuðáhersla er lögð á að allur rekstur sé í samræmi við metnaðarfull markmið í umhverfismálum. Hlutverk fasteignastjóra Hörpu er því bæði mikilvægt og fjölþætt hvað varðar innleiðingu á grænum skrefum.

„Ég er einstaklega ánægð með að hafa fengið Lárus til liðs við þann frábæra hóp sem fyrir er í Hörpu. Hann kemur með mikla og fjölbreytta reynslu þegar kemur að rekstri og stjórnun sem mun vafalítið nýtast vel, sérstaklega í ljósi þess að Harpa er ekki aðeins eitt fjölsóttasta hús landsins, heldur jafnframt listaverk í eigu þjóðarinnar sem okkur ber að hugsa sérstaklega vel um,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, í tilkynningu um ráðninguna