Lárus Sigurður Lárusson héraðsdómslögmaður býður sig fram í 2. sætið í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður fyrir alþingiskosningarnar í haust.

Áður en hann hóf störf sem héraðsdómslögmaður starfaði Lárus lengi hjá Samkeppniseftirlitinu og þar áður hjá Persónuvernd. Hefur hann gengt trúnaðarstörfum innan Framsóknarflokksins sem og gengt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum öðrum.

Styrkja atvinnulífið og uppbygging velferðarmála

Segir hann í fréttatilkynningu að brýnt sé að styrkja atvinnulífið með nýsköpun og samkeppni að leiðarljósi.

,,Það er mikilvægt að á Íslandi sé heilbrigt og öflugt atvinnulíf. Við ættum að stuðla að opnun markaða með breytingum á opinberum aðgangshindrunum og vinna gegn fákeppni. Heilbrigð samkeppni stuðlar að auknum hag neytenda og ég vil beita mér fyrir aukinni neytendavernd og skýrari réttindum neytenda. Á sama tíma er mjög brýnt að við Framsóknarmenn höldum áfram að sýna aðhald og ráðdeild í ríkisrekstrinum," segir Lárus Sigurður í fréttatilkynningu.

,,Ég tel afar brýnt að þeirri uppbyggingu sem staðið hefur yfir að undanförnu á sviði efnahagsmála verði haldi áfram undir styrkri stjórn Framsóknarflokksins og sá mikli efnahagslegi árangur verði nýttur til uppbyggingar í samfélaginu. Uppbygging velferðarmála eru í forgangi hjá mér ásamt áframhaldandi uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og bættum hag öryrkja og eldri borgara."