Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, er með stöðu sakbornings í tólf málum sem til rannsóknar eru hjá embætti sérstaks saksóknara. Verjandi Lárusar í Aurum-málinu sem þingfest var í síðustu viku fór fram á að öll mál hans yrðu tekin saman í eitt þegar rannsókn embættisins lýkur á málunum öllum. Málflutningur var um kröfuna í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og mun dómari að öllum líkindum kveða upp um það í næstu viku hvort hann verði að kröfu verjandans.

Krafan var ein af tveimur í Aurum-málinu sem fjallað var um í morgun. Hin fjallar um framlagningu á gögnum af hálfu ákæruvaldsins en verjendur fjórmenninganna sem ákærðir eru í málinu vildu lengri tíma til að fara yfir gögnin.

Málflutningur tók lengri tíma en áætlað var. Gert hafði verið ráð fyrir klukkustund fyrir málið í dómadagskrá héraðsdóms. Málflutningur stóð hins vegar yfir hálftíma betur.