Lárus Ásgeirsson hefur verið ráðinn í starf forstjóra Icelandic Group. Í tilkynningu frá Icelandic segir að Lárus, sem áður hefur stýrt Sjóvá og starfað innan Marel samstæðunnar, hafi mikla reynslu úr íslensku atvinnulífi og af alþjóðaviðskiptum. Haft er eftir Herdísi Fjeldsted, stjórnarformanni félagsins, að það sé mjög ánægjulegt að fá Lárus, sem er vélaverkfræðingur að mennt, til starfa hjá fyrirtækinu.

„Víðtæk reynsla hans af alþjóðaviðskiptum er afar mikilvæg fyrir Icelandic Group á þessum tímapunkti. Fyrirtækið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum mánuðum. Áhersla hefur verið lögð á að straumlínulaga reksturinn, lækka skuldir, auka arðsemi og draga úr áhættu í starfseminni. Það er því spennandi verkefni sem býður nýs forstjóra; að stýra öflugum hópi stjórnenda og starfsmanna Icelandic Group, leiðandi alþjóðlegs sjávarútvegsfyrirtækis."