*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 26. júní 2020 17:40

Lárus Welding fékk skilorðsbundinn dóm

Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis, hefur verið dæmdur í fimm ára skilorðsbundið fangelsi vegna umboðssvika.

Ritstjórn
Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis.
Aðrir ljósmyndarar

Landsréttur hefur fellt dóm í máli Lárusar Welding, Jóhannesar Baldurssonar og Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar vegna lánveitinga Glitnis til Stíms ehf í lok árs 2007. 

Lárus, fyrrum forstjóri og formaður áhættunefndar Glitnis, var dæmdur í fimm ára skilorðsbundið fangelsi vegna umboðssvika í tengslum við lánveitinga bankans til Stíms ehf. í lok 2007. Jóhannes var dæmur í 18 mánaða fangelsi og Þorvaldur í 12 mánuði. Landsréttur taldi óhjákvæmilegt, þrátt fyrir alvarleika háttseminnar og refsiþyngd, að binda refsingu þeirra allra skilorði sökum þess að mál þetta dróst mjög úr hömlu. 

Lánveitingin átti sér stað 16. nóvember 2007 annars vegar og hins vegar 4. janúar 2008. Landsréttur telur að hún hafi átt sér stað án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur stjórnar bankans og lánareglur hans þar sem lánið hafi ekki rúmast innan viðskiptamarka sem áhættunefnd og ákærði hafi getað ákveðið.

Landsréttur segir að Lárus hafi misnotað aðstöðu sem hann hafði til að skuldbinda Glitni og farið út fyrir heimildir sínar án þess að stjórn bankans hafi áður fjallað um lánamörk Stíms. Í dómnum segir að brot Lárusar hafi verið framið í auðgunarskyni og að háttsemi hans hafi valdið verulegu fjártjónsáhættu. 

Jóhannesi Baldurssyni, fyrrum framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Glitnis, var gefin að sök umboðssvik vegna kaupa GLB FX fagfjárfestasjóðsins á víkjandi skuldabréfi af Sögu Capital fjárfestingarbanka í ágúst 2008. 

Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, var gefin sök að hlutdeild í umboðssvikum Jóhanns, með því að sækja mjög á og hvetja hann til að finna kaupanda að víkjandi skuldabréfinu í því skyni að Saga Capital fengi efndir fjárkröfu sinnar á hendur Stíms.