Þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, misnotuðu aðstöðu sína og stefndu bankanum í stórfellda hættu þegar þeir samþykktu að veita Milestone jafnvirði 10 milljarða króna snemma í febrúar 2008.

Þetta kemur fram í ákæru embættisins á hendur þeim. Þar segir jafnframt að lánveitingarnar hafi meðal annars leitt til falls bankans. Við brotunum getur legið sex ára fangelsisdómur.

Þeir Lárus og Guðmundur sátu báðir í áhættunefnd bankans samþykktu lánveitinguna utan áhættufundar. Lánið fór í gegnum einkahlutafélagafléttu sem tengdust bæði þeim Karli og Steingrímir Wernerssonum, föður þeirra apótekaranum Werner Rasmussen, og þeim Benedikt og Einari Sveinssonum. Lánið var nýtt til að greiða lán félags í þeirra eigu, Þáttar International, sem bandaríski fjárfestingarbankinn Morgan Stanley hafði gjaldfellt. Milestone átti á þessum tíma við greiðsluerfiðleika að etja. Félagið, sem átti tryggingafélagið Sjóvá og fleiri fjármálatengd fyrirtæki, var úrskurðað gjaldþrota í september 2009.

Lánið átti upphaflega að greiðast til baka í einni greiðslu um viku eftir að það var veitt. Sú varð ekki raunin, þvert á móti hefur það aldrei verið greitt.

Í ákærunni kemur fram að heildarlánveitingar félagasamstæðu Milestone fóru við þetta úr 32,4 í 42,4 milljarða króna og nam undir það síðasta 18,8% af eigin fé bankans. ´