Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, rakti í ræðu sinni á fundi Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) í dag þróun skuldatryggingaálags á íslenska banka, sem hann sagði hafa verið mjög ýkta undanfarna mánuði.

„Að mínu mati eru orsakir þessa háa álags sálræn, tæknileg og hátternisbundin. Það sem um er að ræða er almenn áhættufælni á alþjóðamörkuðum, tæknilegir ágallar á óskipulegum og grunnum markaði og afleiðing illskeyttrar umræðu um bankana og íslenskt efnahagslíf.  Full ástæða er til þess að kanna á alþjóðavettvangi hvort setja eigi reglur um þessi viðskipti og jafnvel að þau þurfi að eiga sér stað á skipulögðum markaði.  Þannig myndu liggja fyrir upplýsingar um kaupendur og seljendur, verðtilboð og hagsmunaárekstra“ sagði Jónas.

Þá kom fram í máli Lárusar Welding, sem er formaður SFF og bankastjóri Glitnis, að mikilvægt sé að vinna að hugmyndum um alþjóðlega fjármálamiðstöð á Íslandi. Grunngerð íslenska fjármálamarkaðarins geri slíkt raunhæft, skattalegt umhverfi sé hagstætt, lagaumhverfið traust og menntunarstig hátt.

Þá sagði Lárus ekki hægt að draga annan lærdóm af atburðum undanfarinna mánuða en að tækifærin í fjármálageiranum verði ekki nýtt nema íslensk fjármálafyrirtæki njóti stöðugleika í grunneiningu fjármálakerfisins, myntinni.