Lárus Welding, forstjóri Glitnis segir rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja í heiminum hefur breyst á skömmum tíma og mikilvægt er að fyrirtæki tryggi stöðu sína í breyttu umhverfi með því að sýna sveigjanleika og getu til að lækka kostnað.

„Þessi erfiða ákvörðun markar lok þeirra samræmdu uppsagnaraðgerða sem bankinn hefur unnið að síðan í lok síðasta árs,“ segir Lárus í tilkynningu vegna uppsagna bankans í dag.

„Það er sársaukafullt að grípa til ráðstafana af þessu tagi. Það er eftirsjá af því góða fólki sem nú lætur af störfum vegna þessara hagræðingaraðgerða og ég óska því alls hins besta í framtíðinni. Starfsfólk Glitnis hefur alltaf verið eftirsótt á vinnumarkaðnum og ég er ekki í vafa um að því fólki sem hér um ræðir muni bjóðast störf við hæfi á nýjum vettvangi,“ segir Lárus.

Hann segir að á síðasta ári hafi áætlanir bankans gert ráð fyrir miklum vexti á árinu 2008 og var ráðningum bankans háttað samkvæmt því.

„Forsendur eru nú breyttar og er þessi ráðstöfun að mínu mati nauðsynleg til að straumlínulaga starfsemina og styrkja samkeppnisstöðu bankans. Ég er þess fullviss að með þessu muni bankinn verða betur í stakk búinn til frekari vaxtar þegar alþjóðlegir fjármálamarkaði taka aftur að glæðast,“ segir Lárus Welding, forstjóri Glitnis.