Lesendur Intrafish, sem er stærsta tímarit sem fjallar um sjávarútveg í heiminum, hafa valið  Lárus Welding, forstjóra Glitnis, mann ársins í sjávarútvegi 2008. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni.

Blaðið tilnefndi Lárus ásamt átta öðrum aðilum úr sjávarútvegi í mars síðastliðinn. Meginástæður tilnefningar Intrafish er sú áhersla sem Glitnir leggur á sjávarútveg og aðkoma bankans að fjölmörgum verkefnum tengdum sjávarútvegi og sjávarafurðum víðsvegar um heiminn, segir í tilkynningunni.

„Þetta er mjög ánægjulegt og mér er það mikill heiður að taka við þessari viðurkenningu fyrir hönd Glitnis. Glitnir hefur byggt upp mikla sérfræðiþekkingu á sviði sjávarútvegs víðsvegar um heiminn og vinnur með  nokkrum stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum í heimi. Þetta er fyrst og fremst viðurkenning fyrir framúrskarandi starf starfsmanna Glitnis á þessu sviði og ég vil nota tækifærið og óska sjávarútvegsteymi bankans til hamingju,“ segir Lárus Welding, forstjóri Glitnis.

Sérfræðikunnátta Glitnis vel metin

Þess má geta að meðal þeirra aðila sem Intrafish tilnefndi auk Lárusar  eru forsvarsmenn þriggja fyrirtækja  sem Glitnir hefur unnið náið með á undanförnum árum þar sem bankinn hefur meðal annars komið að ráðgjöf og fjármögnunarverkefnum. Þetta eru forsvarsmenn fyrirtækjanna Icicle, Copeinca og Norway Pelagic.

Í röksemdafærslu blaðsins segir að Glitnir sé þekktur fyrir sérfræðikunnáttu sína á þessu sviði auk þess sem bankinn búi yfir öflugu teymi sérfræðinga með þekkingu á sviði fyrirtækjaráðgjafar í sjávarútvegi.

Þá kemur fram, að þó svo að fjölmörg önnur fjármálafyrirtæki tengist greininni hafi fá fyrirtæki mótað jafn með jafn metnaðarfullt starf á þessu sviði og Glitnir hefur gert á undanförnum árum. Ennfremur kemur fram að markaðssyllur bankans, sjávarútvegur, jarðhiti og þjónustuskip við olíuiðnaðinn hafi vaxið sem hlutdeild af lánabók bankans, úr 11% 2006 í 13% 2007.

Intrafish nefnir einnig fram að bankinn hafi tekið þátt í sjárvarútvegstengdum verkefnum víðsvegar um heiminn og staðið fyrir ráðstefnum og viðburðum um sjávarútvegi og matvælaiðnaði.

Lárus tekur við viðurkenningu Intrafish á sjávarútvegssýningunni í Brussel sem fram fer þessa vikuna.