Hugmyndir eru uppi um að koma á fót nokkurs konar Las Vegas Eystrarsaltsins í í Eistlandi, nánar tiltekið í bænum Narva, að því er fram kemur á fréttavef BBN.

Fyrstur til að viðra hugmyndina var Armin Karu, stærsti eigandi fjárhættuspilakeðjunnar Olympic Casino, sem komst í fréttir hérlendis fyrr í vetur þegar íslenskir aðilar keyptu lítinn hlut í henni.

Aðrir hafa síðan tekið hugmyndina upp á sína arma og vitnar vefurinn í Teer Kuusmik, þróunarstjóra ráðgjafafyrirtækisins Investment Agency OÜ, sem segir markmiðið að laða að eins marga gesti frá Rússlandi, Finnlandi, Svíþjóð og Lettlandi og nokkur er kostur.

Tekið er fram að St. Pétursborg, þar sem og í nærsveitum búa um tíu milljón manns, er aðeins 130 kílómetra frá Narva. Að auki var ríflega 300 spilavítum lokað í St. Pétursborg á þessu ári, þannig að forkólfar málsins telja íbúa þar mjög ginnkeypta fyrir því að spila handan landamæranna.