„Við erum ekkert að láta þetta fara frá okkur. Við erum bara að færa þá til í húsinu,“ segir Eiríkur P. Jörundsson, safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar, um bátalíkönin sem Grímur Karlsson smíðaði af miklum hagleik.

Alls eru bátarnir um 120 talsins og hafa verið til sýnis í vestursal Duus húsa en fara nú yfir í Bryggjuhúsið, þar sem Eiríríkur segir að njóta megi útsýnis á sjóinn. Fátt eigi betur við bátasýningu.

„Sýningin hefur staðið óbreytt í næstum því tuttugu ár og það eru ekki margar sýningar sem þola það. Svo kom líka í ljós að undirstöðurnar undir kössunum voru orðnar ryðgaðar svo það var orðin hætta á að þeir færu að detta um koll, kassarnir. Við ákváðum að nota tækifærið og lífga upp á sýninguna.“

Þegar fréttir bárust af því að fjarlægja ætti bátana úr salnum, þá segir Eiríkur að fljótt hafi orðrómur farið af stað um að safnið ætlaði að losa sig við þá. Einhverjir lýstu yfir áhuga á þvi að kaupa safnið. Eiríkur segir þó engan þurfa að hafa áhyggjur af framtíð bátasafnsins. Þvert á móti verði því gerð betri skil á nýjum stað með breyttri framsetningu.

„Það er mikil saga í þessum bátum og við lítum á þetta sem mikil verðmæti. Það stendur ekki annað til en að þetta verði meira og minna til sýnis áfram. Maður hefur heyrt að fólk sem kemur sakni þess að hafa engan söguþráð á sýningunni.“

Ný sýning á Ljósanótt

Nú í sumar hefur starfsfólk safnsins verið að kortleggja heimildirnar og bátana til undirbúnings nýrri og betri sýningu sem opnuð verði á Ljósanótt.

„Við ætlum að tengja þetta betur við sögunna þannig að fólk skoði ekki bara bátana heldur gangi í gegnum einhverja sögu. Við ætlum bæði að tengja þetta bátasögunni almennt, hvernig bátarnir hafa þróast og hvernig veiðar þær eru að sækja, og svo ætlum við líka að taka heimabátana frá og gera þeim skil sérstaklega, tengja þá útgerðarsögu Keflavíkur og Njarðvíkur.“

Hann segir enn ekki búið að ákveða hvernig salurinn verði notaður þegar bátasafnið verður farið þaðan.

„Við ætlum að byrja með stóra listasýningu þarna í haust en svo er óráðið hvernig þessu verður skipað niður í framhaldinu. Við erum að endurhugsa svolítið menningarhúsin og ætlum bara að nýta þau eins vel og við getum. Þessi söfn hafa vaxið gegnum árin, en húsin stækka ekki.“

Grímur Karlsson var lengi skipstjóri í Njarðvík en tók að smíða bátslíkön sín eftir að hann hætti til sjós. Jafnframt safnaði hann heimildum um hvert skip og fylgja þau líkönunum. Flest eru líkönin gerð eftir skipum sem smíðuð voru hér á landi eða flutt til landsins á fyrstu áratugunum eftir seinna stríð. Grímur lést árið 2017, rúmlega áttræður.