Fimm innflutningsfyrirtæki hafa stefnt íslenska ríkinu til endurgreiðslu á þriðja milljarðs í oftekna skatta sem greiddir hafa verið í formi tolla á landbúnaðarvörur. Til viðbótar er gerð krafa um greiðslu vaxta og dráttarvaxta. Frá þessu er sagt í tilkynningu frá Félagi Atvinnurekenda .

Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður, sem rekur málið fyrir fyrirtækin, segir kröfuna í dag líkleag standa í um fjórum milljörðum, og fara sífellt vaxandi þar sem íslenska ríkið haldi áfram að innheimta gjöldin.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu 16. ágúst rak Páll nýlega svipað mál fyrir hæstarétti, þar sem farið var fram á endurgreiðslu útboðsgjalda, og vann það fyrir hæstarétti , sem gerði ríkinu að endurgreiða fyrirtækjum tæpa þrjá milljarða króna.

Páll sagði við það tilefni skattamál af þessari stærðargráðu ekki hafa unnist áður, en þar sem nýja málsóknin hljóðar upp á hærri upphæð yrði hún jafnframt sú stærsta sinnar tegunda til að vinnast.

Málflutningur Páls byggir á þeirri sérstöðu sem hann segir innheimtu tolla hafa í skattheimtu ríkisins: ráðherra hafi, og nýti á hverju ári, heimild til að lækka eða fella þá niður. Segir Páll það jafngilda valkvæðri skattlagningu, sem blátt bann sé lagt við í 40. og 77. Greinum stjórnarskrárinnar, skattar skuli aðeins ráðast af lögum, og óheimilt sé að fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.