Lettneski bankinn Lateko banka, sem er að mestu leyti í eigu Jóns Helga Guðmundssonar og íslenskra fjárfesta, hefur tryggt sér sambankalán að virði 21 milljón evra, eða rúmlega 1,9 milljarðar króna. Stjórnarformaður bankans Andrejs Svircenkovs greindi frá láninu á blaðamannafundi í gær.

Lánið, sem leitt var af HSH Nordbank og austurríska bankanum RZB, er til 18 mánaða og er annað sambankalán bankans á þessu ári. Kaupþing banki hafði umsjón með 20 milljón evra láni til Lateko fyrr á þessu ári.

Vaxtakjörin eru 75 punktar yfir EURIBOR, sem eru millibankavextir í Evrópu, og segja sérfræðingar kjörin góð. Icebank, SPRON og Sparisjóður Kópavogs tóku þátt í sambankaláninu, en alls tóku 13 bankar þátt í láninu.