Sala á þriðju þáttaröð Latabæjar, sem kom út á þessu ári, hefur gengið geysilega vel.   Þriðja þáttaröðin var heimsfrumsýnd á Bretlandi í vor, og hefur síðan verið að hefja göngu sína víðsvegar um heim, þ.m.t  Ástralíu, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi og Íslandi þar sem þáttaröðin hefur verið sýnd á Stöð 2 frá því í maí mánuði.

Á næstu vikum mun m.a. lönd á borð við Kanada, Rússland og Rúmenía hefja sýningar á þriðju þáttaröðinni og þá mun þáttaröðin hefja göngu sína í opnu sjónvarpi (free to air) hjá NBC sjónvarpstöðinni í Bandaríkjunum þann 5. október næstkomandi og verða fyrir vikið á hverju einasta heimili í Bandaríkjunum. Þriðja þáttaröðin skartar þrettán 24 mínútna þáttum og hefur nú þegar verið seld til meira en 120 landa og enn eiga mörg lönd í samningaviðræðum við Latabæ um sýningarréttinn á þáttaröðinni.

„Við höfum fundið fyrir því að það hefur beðið með mikilli eftirvænting eftir nýju efni frá Latabæ og við erum að fá mjög gott verð fyrir þættina,“ segir Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri sölusviðs Latabæjar.  „Við höfum nú þegar farið fram úr áætlunum um sölu á þáttaröðinni, sem er einstaklega ánægjulegt,“ bætir hann við.

Þriðja þáttaröðin hefur fengið góðar viðtökur þar sem hún hefur verið sýnd og hafa áhorfstölur verið mjög góðar.  „Við erum undantekningalaust að sjá nýju þættina fara langt yfir meðal áhorfstölur þeirra stöðva sem þeir eru sýndir á,“ segir Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og kynningamála hjá Latabæ.

Þess má geta að nú standa yfir tökur á fjórðu þáttaröð Latabæjar í höfuðstöðvum félagsins í Garðabæ.  Fjórða þáttaröðin mun fara í sýningu á næsta ári.