*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 26. nóvember 2004 13:53

Latibær á stærsta markað Evrópu

Ritstjórn

Þýska sjónvarpsstöðin Super RTL og Latibær skrifuðu undir samninga í gær um sýningu á sjónvarpsþáttunum um íbúa Latabæjar. "Sjónvarpsstöðin er sú stærsta sinnar tegundar í Þýskalandi og mun hefja þýðingar á Latabæjarþáttunum eftir áramót og frumsýna í kjölfarið haustið 2005. Super RTL verður einnig samstarfsaðili Latabæjar í þróun og sölu vörum tengdum Latabæ á þýska markaðinum," segir í tilkynningu frá Latabæ.

?Latibær býður upp á öll þau gæði sem Super RTL þarf til að viðhalda sterkri stöðu sinni sem stærsta sjónvarpsstöð fyrir börn í Þýskaland: Einstakir karakterar, framúrskarandi gæði í framleiðslu og sögur sem taka á málum sem börn fást við á hverjum degi!" Segir Susanne Schosser, yfirmaður Super RTL, ennfremur í tilkynningunni frá Latabæ.

Stjórnendur Latabæjar halda því áfram útrás sinni en þeir gerðu fyrir skömmu samninga um sýningar á sjónvarpsþáttum um Latabæ í Kanada eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Fyrsti þátturinn fer í loftið þar þann 6. desember á sjónvarpsstöðinni YTV. Þættirnir verða sýndir alla virka daga klukkan níu á morgnana og einnig klukkan hálf þrjú um daginn.

Fyrsti þátturinn um íbúa Latabæjar var frumsýndur í Bandaríkjunum um miðjan ágúst og segir í tilkynningu frá Latabæ að þættirnir hafi fengið frábært áhorf, til dæmis hafi 10 milljónir manna fylgst með Latabæ í frumsýningarvikunni. Að sögn Ágústs Freys Ingasonar hjá Latabæ, þá var nýr þáttur frumsýndur í síðustu viku og setti hann þegar í stað nýtt áhorfsmet og fékk um 30% meira áhorf en gengur og gerist meðal barna.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.