Latibær hefur ákveðið að opna skrifstofu í London. Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, hafa tveir starfsmenn verið ráðnir til starfa á skrifstofuna en þaðan er ætlunin að stýra markaðsstarfi félagsins í Evrópu og réttindamálum. Þetta er fyrsta opnun félagsins utan Íslands en félagið er með sölustarfsemi víða um heim.

Latibær framleiðir m.a. samnefnda sjónvarpsþætti og hafa þeir verið sýndir í 110 löndum um allan heim. Þeir voru á síðasta ári tilefndir til Emmy-verðlauna og BAFTA-verðlauna fyrir barnaefni.

Þess má geta að leikrit byggt á þema Latabæjar hefur gengið mjög vel og hafa nú 120.000 manns séð leikritið í Argentínu. Einnig hefur það gengið mjög vel í London.