Sjónvarpsþættirnir um Latabæ hafa verið vinsælir hér á landi undanfarin ár eins og víða um heim. Kjarninn í starfsemi Latabæjar snýr þó ekki að framleiðslu sjónvarpsefnis eða varnings tengdum því. Ágúst Freyr Ingason, annar aðstoðarforstjóra Latabæjar, segir hugmyndina á bak við Latabæ snúast um miklu stærri hluti en sjónvarpsþætti. Á bak við Latabæ sé mun stærri og dýpri hugsun sem snúi að útbreiðslu á heilbrigðum lífsstíl fyrir börn um allan heim.

,,Hugsunin hjá Magnúsi í upphafi var alltaf að finna leiðir til að virkja börn í gegnum skemmtiefni, til að hreyfa sig og borða hollan mat; m.ö.o. að búa til jákvæðar fyrirmyndir í heilbrigðu líferni. Þannig varð Latibær til, fyrst sem bók og síðan sem leiksýning."

Hann segir grundvallar viðskiptahugmyndina á bak við Latabæ alltaf hafa verið þá að selja og markaðssetja heilbrigðan lífsstíl og hugmyndafræði, og nýta til þess ýmsa miðla. „Við tókum þá ákvörðun að velja sjónvarpið sem fyrsta útrásarmiðilinn. Þess vegna halda sjálfsagt margir að rekstur okkar snúist að mestu um gerð sjónvarpsþátta, en svo er alls ekki."

Síðustu ár hafa verið viðburðarík hjá fyrirtækinu. „Við höfum á síðustu tveimur árum endanlega sannreynt að hugmyndafræði og viðskiptamódel Latabæjar virkar. Nú stöndum við á tímamótum í starfsemi fyrirtækisins. Við komum Latabæ að í sjónvarpi um allan heim strax frá upphafi, sem er bæði krefjandi verkefni og sjaldgæfur árangur. Aðeins örfá dæmi eru um að barnaefni sem framleitt er í Evrópu hljóti sýningu í bandarísku sjónvarpi. Við framleiddum okkar eigið efni hér á Íslandi, seljum varning í tugum landa, höfum selt tvær milljónir bóka, tvær milljónir dvd-diska, 400 þúsund geisladiska og milljón miða á leiksýningar, svo einhver dæmi séu tekin. Tími þess að prófa hugmyndafræðina er liðinn. Nú er komið að því að innleiða viðskiptamódelið á öllum mörkuðum fyrirtækisins."

Hann segir fjölmörg verkefni vera á teikniborði Latabæjar í dag og tengjast útvarpi, vefnum, tónlist, matvælum, samstarfi við fyrirtæki og framleiðslu á ýmsum varningi. Einnig sé uppi hugmynd um gerð kvikmyndar sem verið er að skoða um þessar mundir.

______________________________________

Nánar er fjallað um  Latabæ og Ágúst Frey Ingason í viðtali við hann í sérblaði sem fylgir með Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .