Þórunn Reynisdóttir framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands, sem rekur Úrval-Útsýn, Sumarferðir, Plús ferðir og ITB segir þessa hefðbundnu sólarstaði alltaf halda sínum vinsældum hjá íslenskum ferðamönnum.

„Ég hef á tilfinningunni að fólk sé að ferðast meira en áður, en við erum að fara í mun fleiri ferðir yfir árið en áður" segir Þórunn í samtali við Viðskiptablaðið um hver þróunin er í ferðum Íslendinga erlendis.

„Síðan erum við með mikið að fyrirspurnum fyrir hópa sem vilja fara á óvenjulega staði. Ég myndi segja að það væri meiri aukning í því. Til dæmis er mjög vinsælt að fara til Tælands, sem er svona annar sólarstaður yfir vetrarmánuðina.

Það eru miklir möguleikar með British Airways sem við erum að bjóða upp á, einmitt til fjarlægra landa eins og Tælands og Suður Afríku, sem er nýtt."

Ekki í eigu flugfélaga

Þórunn segir mikil tækifæri í aukinni samkeppni um flugferðir til og frá landinu fyrir sjálfstæða ferðaþjónustu sem ekki er í eigu flugfélags.

„Það er mun betra fyrir okkur. Við semjum við öll flugfélög sem hingað fljúga og bjóðum Íslendingum upp á, annars vegar eingöngu flug, og hins vegar flug og pakka," segir Þórunn sem segir það mun öruggara að versla ferðalög í gegnum ferðaskrifstofur.

„Látið sérfræðinginn sjá um þetta. Svo mæli ég líka eindregið með því að fyrirtæki hafi samband við fyrirtæki eins og okkar og leiti hagstæðustu kjara, sérstaklega í ljósi fjölda flugfélaga sem eru að fljúga til og frá landinu.

Það sparar tíma og peninga að leita til sérfræðinga eins og okkar."

Borgarferðir vinsælar og aukin dreifing

Þórunn segir aukna flugtíðni einnig hafa aukið vinsældir borgarferða ýmis konar.

„Háannatími Íslendinga sem eru að ferðast er auðvitað í maí til september, ekki ósvipað og með ferðamennina sem eru að koma til Íslands," segir Þórunn sem segir þó þróunina vera frá háaannatímanum.

„Það sama er að gerast með Íslendinga og erlenda ferðamenn hingað til lands, þeir eru líka að dreifa ferðum sínum erlendis meira yfir árið. Fólk er að fara á öllum tímum."