Jóhanna Sigurðardóttir fráfarandi forsætisráðherra er hugsjónakona en þrjóskur jafnaðarmaður sem lítur upp til ömmu sinnar, verkalýðsleiðtogans Jóhönnu Guðlaugar Egilsdóttur. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í máli samverkamanna Jóhönnu og fjölmiðlamanna í gegnum tíðina í umfjöllun tímaritsins Iceland Rewiew.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins og flokksbróðir Jóhönnu til margra ára, segir hana hafa brugðist harkalega við þegar hann hafi svarað gagnrýni hennar á ríkisstjórnina á fundii Alþýðuflokksins í Hafnarfirði í nóvember árið 1992. Alþýðuflokkurinn hafði þá setið eitt ár í svonefndri Viðeyjarstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Davíð Oddsson var forsætisráðherra í fyrsta sinn og var Jón Baldvin utanríkisráðherra .

Allt varð vitlaust

Jón segir Jóhönnu hafa sakað ríkisstjórnina um svikið loforð sín. „Ég brást hart við, sagði Jóhönnu bæði vera sjálfhverfa og ósanngjarna.“ Þá sagði hann Alþýðuflokksmenn hvorki vera kommúnista né einstrengingslega heldur leita eftir því að sættast við andstæðinga sína ef það hjálpi til við að koma máefnum flokksins áleiðis.

„Allt varð vitlaust,“ segir Jón Baldvin og rifjar upp að Jóhanna hafi orðið mjög ósátt við svör hans. Reynt hafi verið að stilla til friðar. En ljósmyndara hafi drifið að. „Ég brosti og gekk yfir til Jóhönnu og lyfti hægri hönd hennar upp – það var merki um samstöðu okkar þrátt fyrir allt.“

Í umfjölluninni segir að á ljósmyndum af atvikinu megi greina að Jóhanna segi eitthvað við Jón Baldvin. En hvað það var hafi aldrei komið fram. Þá heyrðist það heldur ekki á upptökum vegna hávaðans á fundinum.

Jón Baldvin segir í umfjölluninn að í ljósi þess hversu langur tími sé liðinn frá því þetta gerðist telji hann hann í lagi í að ljóstra upp um málið.

„Jóhanna hreytti úr sér: Láttu mig í friði, helvítið þitt!“ segir hann.

Tveimur árum eftir þetta fór Jóhanna fram í formannsslag Alþýðuflokksins en laut í lægra haldi fyrir Jóni Baldvini. Á fundinum lýsti hún því yfir að sinn tími muni koma, sagði sig úr flokknum og stofnaði Þjóðvaka. Þjóðvaki stóð með öðrum flokkum að stofnun Samfylkingarinnar árið 2000 og varð Jóhanna forsætisráðherra vorið 2009.