Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf Forks hefur tryggt sér ríflega 300 milljónir króna í nýtt hlutafé í hlutfjáraukningu sem Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leiðir. Hlutaféð er samkvæmt tilkynningu ætlað að standa undir áframhaldandi uppbyggingu félagsins á Bandaríkjamarkaði. Reiðhjól Lauf Forks eru nú þegar seld í ríflega 70 verslunum vestanhafs en einnig með milligöngu dreifingaraðila um heim allan.

Erla Skúladóttir, stjórnarformaður Lauf Forks, segir reiðhjól félagsins hafi fengið góðar viðtökur í Bandaríkjunum og því sé ákjósanlegt að leggja áherslu á frekari vöxt þar. Markaðurinn vestanhafs er risavaxinn og malarhjólreiðar njóta þar sívaxandi vinsælda á kostnað hefðbundinna götuhjólreiða. Þróunin á Evrópumarkaði er skemmra á veg komin en félagið vinnur að samstarfssamningi við öflugan dreifingaraðila um markaðssetningu og sölu reiðhjólanna þar á næstu misserum,“ segir Erla.

Lauf Forks var stofnað árið 2011 af þeim Benedikt Skúlasyni og Guðberg Björnssyni. Lauf Forks var upphaflega stofnað utan um uppfinningu léttasta demparagaffals í heimi, sem býr yfir svokallaðri blaðfjöðrun, og nýtur nú einkaleyfis á öllum helstu framleiðslu- og sölumörkuðum. Gaffallinn hefur rutt brautina fyrir tvær tegundir reiðhjóla undir vörumerki Lauf, sem hvora um sig má fá í mismunandi útfærslum. Annars vegar malarhjólið Lauf True Grit, sem helstu net- og prentmiðlar í hjólaheiminum hafa undanfarið ausið lofi. Hins vegar Lauf Anywhere, sem er alhliða reiðhjól, sem var nýlega kynnt til sögunnar og hefur þegar hlotið mjög jákvæðar viðtökur. Það skartar nýju stýri sem gefur létta fjöðrun og er önnur tveggja uppfinninga félagsins sem eru nú í alþjóðlegu einkaleyfaferli. Umboðsaðili Lauf forks á Íslandi er hjólaverslunin Kría.