Guðni Bergsson tók nýverið við starfi formanns KSÍ, eftir það sem mörgum þótti hörð kosni n g a b a r á t t a við Björn Einarsson. Óhætt er að segja að sambandið standi á eins konar tímamótum um þessar mundir enda mörg stór verkefni fram undan og ber þar hæst möguleg endurbygging Laugardalvallar.

Stóra verkefnið að viðhalda árangrinum

Hver eru svona stærstu verkefnin sem bíða þín um þessar mundir og myndir þú segja að þú hafir tekið við góðu búi?

„Já, fjárhagur sambandsins er sterkur og góður og enn betri eftir síðasta rekstrarár, þannig að staðan er góð. Mitt hlutverk er auðvitað að sinna íslenskri knattspyrnu í sínum víðtækasta skilningi enda kemur KSÍ að mótamálum, dómaramálum, fræðslumálum og rekstri Laugardalsvallar. Við það bætist utanumhald um landsliðin okkar þar sem leggja þarf áherslu á að viðhalda þessum árangri bæði karla og kvenna megin sem er svo gríðarlega hvetjandi og góður fyrir fótboltann í heild sinni. Það má segja að eitt af stóru verkefnunum sé að horfa fram á veginn með það að markmiði að viðhalda þessum árangri okkar A-landsliða og þá horfir maður líka til uppbyggingar yngri landsliðanna í því sambandi.

Annað stórt og viðamikið verkefni er mögulega endurbygging Laugardalsvallar sem verið er að vinna að um þessar mundir. Sú vinna hefur verið leidd af ráðgjafafyrirtækinu Borgarbrag og franska fyrirtækinu Lagardère Sport í samvinnu við KSÍ. Ég hef verið að koma að þeirri vinnu og er það mín skoðun að hér sé um að ræða mikilvægt og nauð­synlegt framfaraskref. Laugardalsvöllurinn, eins og hann hefur þjónað okkur vel, er orðinn 60 ára gamall að upplagi og skipulagi og stenst ekki nútímakröfur og nú er svo komið að við erum á undanþágum með ýmislegt varðandi aðstöðuna. Um þessar mundir er verið að velta upp öllum möguleikum í stöð­ unni og skoða allan kostnað en það er ljóst að Reykjavíkurborg, sem er 80% eigandi vallarins, verður að koma að verkefninu ásamt ríkinu ef vel á að vera. Þetta eru þessi helstu verkefni sem við erum að eiga við um þessar mundir fyrir utan hinn daglega rekstur og allt sem að honum lítur. Svo mun ég að sjálfsögðu taka mér tíma í að kynna mér starfið enn betur enda er ég bara búinn að vera hér í tvo mánuði og ennþá margt ólært.“

Laugardalsvöllur ónothæfur í mars og nóvember

Hvaða hug berð þú til Laugardalsvallar og hversu brýnt er það að þínu mati að ráðast í uppbyggingu hans?

„Ég held að það sé erfitt að ofmeta táknræna stöðu Laugardagsvallar enda má segja að völlurinn sé heimili íslenskrar knattspyrnu. Hér hafa allir landsleikirnir farið fram í gegnum tíðina auk þess sem deildarleikirnir voru á árum áður gjarnan spilaðir á vellinum áður en félögin fóru að spila leiki á sínum heimavöllum. Í mínum huga hefur völlurinn því mikilvæga táknræna stöðu fyrir íslenskan fótbolta í heild sem og mig persónulega. Ég man t.d. mjög vel eftir því að sjá minn góða vin, Ásgeir Sigurvinsson, skora seinna markið í 2-1 sigri á Austur-Þjóðverjum árið 1975 og þegar „Búbbi“, Jóhannes Eðvaldsson fyrra markið með hjólhestaspyrnu í sama leik. Þetta var einn af fyrstu stóru sigrum okkar.

Ég spilaði síðan sjálfur lengi með landsliðinu þannig að ég á mjög sterkar rætur hér og ég hald að margir knattspyrnumenn, bæði ungir sem aldnir deili þeirri tilfinningu. Að mínu mati er gríðarlega mikilvægt að vera með leikvang sem styður við knattspyrnumenninguna en góður heimavöllur getur einfaldlega skilað okkur nokkrum aukastigum í riðlakeppninni. Í dag eru gerðar meiri kröfur til aðbúnaðar sem stúka vallarins uppfyllir t.d. ekki, auk þess er völlurinn er opinn bæði í norð­ ur og suður sem gerir skilyrði oft erfið, sér í lagi þegar við erum að horfa fram á heimaleiki og mótsleiki bæði í mars og nóvember, þegar allra veðra er von.“

Völlurinn er í raun ónothæfur á þessum tíma árs ekki satt?

„Jú, það má segja að hann sé það. Í góðu árferði gæti þetta ef til vill gengið upp en við vitum það aldrei fyrirfram og þetta ástand getur bara staðið okkur virkilega fyrir þrifum.“

Viðtalið við Guðna Bergsson má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.