Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að auglýsa húseignirnar að Laugavegi 4 og 6 til leigu en gert er ráð fyrir að í húsunum verði verslunarstarfsemi.

Þetta kemur fram í tilkynningu en á árinu var deilt harkalega um uppbyggingu nýrra bygginga á lóðunum. Þáverandi borgarmeirihluti vildi vernda götumyndina og svo fór að Reykjavíkurborg keypti húsin af eigendum.

„Reykjavíkurborg festi kaup á húsunum árið 2008. Húsið Laugavegur 4 var byggt árið 1890 og Laugavegur 6 var byggt sem íbúðarhús árið 1871. Þessi kafli Laugavegarins er því elsti hluti götunnar og húsin hluti af elstu byggðinni í miðborg Reykjavíkur.

Uppbygging húsanna hófst árið 2009 og var unnin í samráði við Minjasafn Reykjavíkur og Húsafriðunarnefnd. Götumyndin frá fyrri hluta 20. aldar hefur verið varðveitt og ytra byrði gömlu húsanna hefur verið fært í upprunalegt horf.

Verklok eru áætluð í lok mars næstkomandi. Lóðin milli húsanna verður þó ekki fullfrágengin fyrr en í maílok. Miðað er við að húsin verði leigð frá 1. apríl 2011,“ segir í tilkynningu.