Beiðni íbúa við Laugaveg í Varmahlíð um að nafni götunnar verði breytt í Laugarveg var hafnað í skipulags- og byggingarnefnd Skagafjarðar í vikunni. Beiðnin á rætur að rekja til greinar sem Rúnar Birgir Gíslason skrifaði í héraðsfréttablaðinu Feyki í sumar þar sem hann sagði rétt nafn götunnar vera Laugarvegur en ekki Laugavegur.

Í bókun um málið kom fram að starfsfólk Héraðsskjalasafns Skagfirðinga hafi brugðist við með því að fara yfir fundargerðabækur byggingarnefndar og hreppsnefndar Seyluhrepps. Þar kom fram að upphaflega hafi staði til að nefna götuna Grundargötu en að lokum var nafnið Laugavegur samþykkt þann 14. maí árið 1980. Síðan hafi gatan alltaf verið nefnd Laugavegur í fundargerðum og bókunum nefnda sveitarfélagsins. Því var beiðninni um nafnabreytingu hafnað.

Linmæltir landsmenn hafa án vafa vandræðast með hvort rita eigi Laugavegur eða Laugarvegur hvort sem það er í Varmahlíð eða annars staðar á landinu. Fáir hafa þó lent í jafn miklum vandræðum og bandaríski ferðamaðurinn Noel Santillan sem lenti á Keflavíkurflugvelli í byrjun árs 2016. Noel setti stefnuna á Hótel Frón á Laugavegi í Reykjavík. R-ið varð honum að falli þar sem hann ók norður á land eftir að hafa slegið inn götuna Laugarvegur á Siglufirði í GPS-tækið. Heimamenn voru steinhissa þegar hann bankaði upp á og spurði hvort þeir gætu bent honum á Hótel Frón.

Noel fékk sínar fimmtán mínútur af frægð út á bíltúrinn þar sem fjölmiðlar bæði hér á landi og erlendis voru afar áhugasamir um hin áttavillta ferðamann. Í viðtali við Vísi sagði Noel að vel hafi verið hugsað um hann á Hótel Sigló þar sem hann neyddist til að gista. Noel villtist síðar í ferðinni o g endaði inn á skrifstofu Bláa lónsins í Eldborg þegar hann hafði sett stefnuna ofan í lónið sjálft.