Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Novators, er fyrsti milljarðamæringur Íslands í dollurum talið en hann hefur byggt upp auðæfi sín í gegnum fjárfestingar í fjármálafyrirtækjum, lyfjafyrirtækjum og fjarskiptafyrirtækjum. Undanfarið ár hefur hann selt sig út úr mörgum af þeim fjárfestingum sem hann hefur viðað að sér á síðastliðnum misserum. Hann hefur unnið að endurskipulagningu veldis síns á meðan markaðir hafa fallið allt í kringum hann.

Björgólfur Thor er án efa þekktasti afkomandi hins mikla athafnamanns Thors Jensen og hefur keypt húsið sem langafi hans byggði á Fríkirkjuvegi 11. Endurbætur á húsinu eiga að hefjast innan tíðar en á jarðhæð er fyrirhugað að koma á laggirnar safni um ævi Thors og atvinnusögu 20. aldarinnar í Reykjavík, sem og aðstöðu fyrir fundi og ráðstefnur.

Þrátt fyrir að Björgólfur Thor sé án efa einn áhrifamesti fjárfestir landsins hefur hann aldrei staðið í fyrirtækjarekstri hér á landi fyrir utan tímabundin verkefni í veitingahúsarekstri. Eftir nám í Bandaríkjunum var hann fljótt kominn með annan fótinn inn í Rússland þar sem hann varð fyrstur til að hefja framleiðslu vestræns bjórs í félagi við föður sinn og Magnús Þorsteinsson. Á sama tíma má segja að hann hafi ýtt úr vör útrás íslenskra fyrirtækja með yfirtöku Pharmaco á Balkanpharma árið 1999. Samson- hópurinn, sem samanstendur af þeim þremur, Björgólfunum tveimur og Magnúsi, tók síðan íslenskt viðskiptalíf með áhlaupi þegar hann keypti Landsbankann í lok árs 2002 og náði þannig að keyra einkavæðingarferli bankanna af stað. Í kjölfarið má segja að ákveðin kyrrstaða hafi verið rofin í íslensku viðskiptalífi og eldri viðskiptablokkir verið leystar í sundur.

______________________________________

Í áttundu og síðustu grein greinaflokks Viðskiptablaðsins um Auð og völd í íslensku efnahagslífi, sem birtist í Viðskiptablaðinu á morgun,  er fjallað um viðskiptaveldi Björgólfs Thors. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .