Árið 2006 voru regluleg laun fullvinnandi launamanna á almennum vinnumarkaði að meðaltali 297 þúsund krónur á mánuði og heildarlaun 383 þúsund krónur.  Fjöldi greiddra stunda var 45 stundir á viku. Heildarlaun, laun sem innihalda bæði reglulegar og óreglulegar greiðslur, voru hæst í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og almannatryggingum, 530 þúsund krónur að meðaltali á mánuði og lægst í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu 337 þúsund krónur. Greint er frá þessu á vef hagstofu Íslands.

Frá árinu 1998 byggja niðurstöður á fjórum atvinnugreinum; iðnaði, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, verslun og ýmissi viðgerðarþjónusta og samgöngum og flutningum. Árið 2005 bættist við atvinnugreinin fjármálaþjónusta, lífeyrissjóðir og vátryggingar.

Dreifing hefur aukist nokkuð ef horft er til tímabilsins 1998–2006 án fjármálaþjónustu, lífeyrissjóða og vátrygginga. Árið 1998 voru algengustu heildarlaun á bilinu 95–145 þúsund krónur og voru 32% launamanna með laun á því bili. Árið 2006 voru algengustu heildarlaun á bilinu 245–295 þúsund krónur og voru 18% launamanna með laun á því bili.