Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sent Bankasýslu ríkisins bréf þar sem þess er krafist að launaákvarðanir bankanna verði tafarlaust endurskoðaðar. Í bréfinu segir að laun æstu starfsmanna hafi verið ákveðin úr hófi og verið leiðandi. Þá hafi launaákvarðanir ekki virt þau tilmæli sem beint hafi verið til bankanna í eigandastefnu frá 2017 og ítrekuð hafi verið við stjórnir bankana, en þar var lögð áhersla á hófsemi og varfærni um launaákvarðanir.

„Við þá stöðu sem upp er komin verður ekki unað. Traust og trúnaður verður að geta ríkt milli þeirra sem falin er stjórn mikilvægra félaga og þeirra stjórnvalda er bera ábyrgð á starfsemi þeirra sem eigandi. Launaákvarðanir bankanna hafa nú þegar haft veruleg neikvæð áhrif á orðspor þeirra og þannig valdið þeim skaða, auk þess sem þær sendu óásættanleg skilaboð inn í þær kjaraviðræður sem nú standa yfir.

Er þess hér með óskað að Bankasýsla ríkisins komi framangreindi afstöðu ráðuneytisins á framfæri við viðkomandi stjórnir með afdráttarlausum hætti og ennfremur því, að ráðuneytið telji að bregðast eigi við þeirri stöðu sem upp er komin með tafarlausri endurskoðun launaákvarðana og undirbúningi að breytingum á starfskjarastefnum, sem lagðar verði fram á komandi aðalfundum bankanna,“ segir í bréfi Fjáramálaráðuneytisins til Bankasýslu ríkisins.