Heildargreiðslur til Jamie Dimon, bankastjóra bandaríska bankans JP Morgan, námu 11,5 milljónum dala á síðasta ári. Þetta jafngildir tæpum 1,5 milljörðum íslenskra króna. Þrátt fyrir hátt kaup á íslenskan mælikvarða þá kemur þetta við veski Dimon, því upphæðin er helmingi lægri en árið 2011. Það ár fékk Dimon 23 milljónir dala og setti hann á stall sem launahæsti bankastjóri Bandaríkjanna. Inni í heildargreiðslunum eru 1,5 milljóna dala laun og falla tíu milljónir undir bónusgreiðslur.

Bloomberg-fréttaveitan segir ástæðuna fyrir því að bónusinn hafi verið skorinn við nögl þá að JP Morgan hafi tapað 6,2 milljörðum dala á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Tapið skrifast að mestu á tap miðlara bankans í London og verði Dimon að taka ábyrgð á því eins og öðru í rekstri bankans þótt hann hafi krafist rannsóknar á málinu og leitt hana.