Laun ríkustu konu Bretlands, Denise Coates, stofnanda og forstjóra veðmálafyrirtækisins Bet365, lækkuðu úr 421 milljónum punda, um 73 milljörðum króna, í 250 milljónir punda, um 43 milljarða króna, á milli ára. The Times greinir frá.

Því til viðbótar fékk Coates þó 49 milljóna punda arðgreiðslu, um 8,5 milljarða króna, fyrir helmingshlut sinn í Bet365. Tekjur Denise Coates af Bet 365 numu því um 50 milljörðum króna í fyrra.

Sjá einnig: Með svimandi háar tekjur

Coates hefur verið langlaunahæsti forstjóri Bretlands undanfarin ár og einn launahæsti forstjóri heims.

Bet365 greiddi alls út 97,5 milljónir í arð og veitti 103 milljónir til góðgerðamála en þar af fóru 100 milljónir punda til góðgerðasamtakanna The Denise Coates Foundation.

Tekjur Bet365 stóðu í stað milli ára og voru um 2,8 milljarðar punda en rekstrarhagnaðurinn jókst um nær helming og nam 286 milljónum punda, einna helst vegna lægri launagreiðslna. Coates segir í ársskýrslu félagsins að heimsfaraldurinn hafi haft mikil áhrif á reksturinn. Þegar íþróttaviðburðir hófust á ný á síðari hluta ársins hafi tekjurnar aukist á ný og orðið álíka og fyrir faraldurinn.

Coates stofnaði Bet365 árið 2001 en félagið er með höfuðstöðvar í Stoke-on-Trent. Coates fjölskyldan keypti knattspyrnuliðið Stoke City af íslenskum fjárfestum árið 2006 og heitir heimavöllur liðsins nú Bet365 leikvangurinn. The Times áætlar að auður Coates fjölskyldunnar sé um 8,5 milljarðar punda.