Fyrir þá 4.500 einstaklinga sem höfðu hærri mánaðartekjur en 1 milljón króna í maí í fyrra hafa laun þeirra lækkað um fjórðung, en þá 500 sem höfðu 2 milljónir króna eða meira á mánuði í maí í fyrra hafa launin lækkað um helming.

Þetta kemur fram í Hagsjá, vefriti Landsbankans en Hagfræðideild bankans byggir útreikninga sína á vefriti fjármálaráðuneytisins þar sem í dag er fjallað um tekjuþróun Íslendinga.

En ef tekjuþróunin fyrir þá sem hafa hærri tekjur en 250 þúsund krónur á mánuði hafa þær dregist saman og þeim mun meira sem launin eru hærri.

Tekjur þeirra tæplega 190 þúsund Íslendinga sem höfðu tekjur í maí í fyrra og í maí í ár hafa, að meðaltali lækkað um 5% og eru skattgreiðslur 5,6% lægri.

Fram kemur að ráðstöfunartekjur einstaklinga með mánaðartekjur á bilinu 200-450 þúsund kr. breyttust ekki að krónutölu, þrátt fyrir hærra skatthlutfall, en mikil hækkun persónuafsláttar vegur þar á móti. Fyrir þá launahærri drógust ráðstöfunartekjur meira saman en tekjurnar sjálfar.

Þegar launaþróunin er skoðuð eftir 50 þúsund króna launabilum á launatekjum frá 100 þúsundum upp í eina milljón krónur, sést að laun í maí í ár samanborið við maí í fyrra hafa einungis hækkað fyrir einn launahóp, þ.e. þá sem höfðu laun á bilinu 200-250 þúsund krónur á mánuði í maí í fyrra.

Laun þeirra sem hafa tekjur á bilinu 100-200 þúsund krónur á mánuði hafa þó lækkað umtalsvert, eða í kringum 15%, en Hagfræðideild Landsbankans segir að það gæti skýrst af tekjum þeirra sem voru í hlutastörfum í fyrra en hafa engar tekjur lengur, eins og t.d. námsmenn.

Fjármálaráðuneytið fylgist reglulega með staðgreiðslu af tekjum einstaklinga í þeim tilgangi að geta lagt betra mat á þróun efnahagslífsins og jafnframt tekjuþróun ríkissjóðs. Voru gögnin pöruð, þ.e. einungis teknir með einstaklingar sem bæði höfðu tekjur í maí í ár og í maí í fyrra, en samkvæmt ráðuneytinu voru um 37 þúsund manns á staðgreiðsluskrá í maí í fyrra sem ekki eru nú á skrá og um 15 þúsund manns á staðgreiðsluskrá nú í maí sem voru það ekki í maí í fyrra.