Launavísitalan hækkaði um 0,4% í nóvember og má rekja hluta hækkunar til aukagreiðslna hjá opinberum starfsmönnum í heilbrigðisgeiranum. Enn fremur gætir áhrifa vegna kjarasamninga kennara sem komu til framkvæmda í október og nóvember en aukagreiðslur lækkuðu eilítið á almennum vinnumarkaði, að því er segir á vef Hagstofunnar.

Á milli þriðja ársfjórðungs 2018 og 2020 hækkuðu laun um ellefu prósent, hvort sem litið er til launavísitölu eða vísitölu heildarlauna. Sagt er frá því að launaþróun á tímabilinu skýrist af stórum hluta af launahækkunum sem samið var um í kjarasamningum.

Á áðurnefndu tímabili nam launahækkun samkvæmt launavísitölu um 11,2% á almennum vinnumarkaði en 10,9% í opinbera geiranum. Á milli þriðja ársfjórðungs 2018 og 2019 þá hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 5,1% en um 2,2% í opinbera geiranum.