Launavísitalan hækkaði um 0,7% milli september og október samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,1%, sem er mesta ársbreyting frá því í apríl 2018. Á síðasta ári hækkaði vísitala neysluverðs um 3,6%.

Árshækkunartaktur launavísitölunnar hefur verið umfram sex prósent allt frá því í apríl en rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans.

„Hluti af þessari hækkun eru líklega áhrif af hækkunum vegna nýgerðra kjarasamninga grunnskólakennara og hjúkrunarfræðinga. Fyrir utan venjulegar hækkanir grunnlauna er ekki ólíklegt að auknar aukagreiðslur hafi haft áhrif til hækkunar launavísitölu (álags-, bónus- og vaktagreiðslur),“ kemur fram í greiningu bankans.

Kaupmáttarvísitala hefur haldið nokkuð vel síðustu mánuði og var kaupmáttur launa í október einungis 0,4% minni en í apríl, þegar hann var hæstur.

Laun á almenna markaðnum hækkuðu um sex prósent frá ágúst 2019 til ágúst 2020 en 8,2% á opinbera markaðnum, 7,5% hjá ríkinu og 9% hjá sveitarfélögunum. Atvinnuleysi er enn að aukast og er nú komið yfir 10% og hefur ekki verið meira í annan tíma.