Launavísitalan hækkaði um 0,5% á milli mánaða í októbermánuði og hefur þar með hækkað um 7,7% undanfarið ár. Hækkunina má rekja til launahækkana á almennum vinnumarkaði ásamt vaktaálags umfram grunnlaun hjá hinu opinbera. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka .

Þar vega þyngst launahækkanir um síðustu áramót sem voru samkvæmt kjarasamningum og náðu til meirihluta starfsfólks á vinnumarkaði, en laun hækkuðu þá um 3,7% milli mánaða. Jafnframt hefur stytting vinnuvikunnar veruleg áhrif til hækkunar á vísitölum undanfarið ár, enda mæla vísitölur regluleg laun á hverja unna vinnustund að því er segir í greiningu Íslandsbanka.

Íslandsbanki bendur einnig á að opinberir starfsmenn leiði hækkun launavísitölu vegna krónutöluhækkana og styttingu vinnuvikunnar. Áhrif styttingar vinnuvikunnar til hækkunar á launavísitölu frá nóvember 2019 til júní 2021 voru þannig meiri hjá ríkisstarfsfólki samanborið við starfsfólk á almennum vinnumarkaði og þá hækkuðu laun starfsfólks sveitarfélaga hlutfallslega mest í kjölfar lífskjarasamninganna.

Kaupmáttur launa rýrnaði um 0,1% á milli mánaða vegna hækkandi verðbólgu sem nú mælist 4,5%. Kaupmáttur launa hefur aukist um 2,9% undanfarið ár.

Kaupmáttur hefur aukist um 3-4% hjá lágtekjuhópum en nánast staðið í stað hjá sérmenntuðu starfsfólki undanfarið ár.