Laun hækkuðu um 8,3% á milli meðaltala áranna 2020 og 2021, sem er mesta hækkun launavísitölunnar frá 2016 þegar hún hækkaði mest á þessari öld. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans.

Meðalhækkun launavísitölunnar frá aldamótum er 6,9% milli ára og er hækkunin á árinu 2021 því nokkuð mikil í sögulegu samhengi. Vísitalan var nær óbreytt milli nóvember og desember samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, en síðustu tólf mánuði hefur hún hækkað um 7,3% sem er nokkuð lægri árstaktur en verið hefur síðustu mánuði, að því er kemur fram í hagsjá Landsbankans.

Verðbólga í desember mældist 5,1%, en samkvæmt spám á hún að hjaðna á næstu mánuðum. Ef tekið er mið af verðbólgu desembermánaðar jókst kaupmáttur launa um 2,1% milli desembermánaða 2020 og 2021, miðað við 7,3% hækkun á launavísitölunni. Kaupmáttur launa jókst um 3,7% á milli meðaltala áranna 2020 og 2021, sem er meira en næstu tvö ár þar á undan. Mikil verðbólga var á árinu sem gerði það að verkum að miklar launahækkanir skiluðu síðri kaupmætti en ella hefði orðið.

Laun, kaupmáttur
Laun, kaupmáttur
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þann 1. maí næstkomandi stefnir í frekari launahækkanir á nær öllum vinnumarkaðnum þegar hagvaxtaraukinn tekur gildi. Aukinn byggir á fyrstu niðurstöðum Hagstofu Íslands um þjóðhagsreikninga ársins 2021 sem birtast í lok febrúar. „Miðað við þær tölur sem komið hafa fram um hagvöxt á árinu 2021 má fastlega reikna með því að virkja megi ákvæði samninga um hagvaxtarauka sem myndi hækka laun þann 1. maí 2022,“ að því er kemur fram í hagsjá Landsbankans.