Undanfarna 12 mánuði hafa bæði leiguverð og íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað minna en launavísitala. Þetta er í fyrsta skipti síðan í júní 2016 sem 12 mánaða hækkun launa er meiri en hækkun bæði leigu- og íbúðaverðs.

Íbúðir á höfuðborgarsvæðinu seldust að meðaltali á 1,3 milljónum króna undir ásettu verði í apríl en afsláttur af ásettu verði hefur þó farið minnkandi síðan í desember. Verð dæmigerðrar íbúðar á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað minna undanfarin tvö ár en vísitala íbúðaverðs gefur til kynna.

Leiguverð hækkar hægar en laun

Árshækkun leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu mælist nú 6,2% á meðan íbúðaverð hefur hækkað um 5,4% og laun um 7,3% undanfarið ár. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs í júní. Laun hafa hækkað um 7,3% undanfarið ár, en leiga á höfuðborgarsvæðinu um 6,2% og íbúðaverð um 5,4%.

Á sama tíma og hægt hefur á hækkun fasteignaverðs hafa vextir á íbúðalánum haldið áfram að lækka. Þegar tekið er tillit til beggja þátta, þ.e. þróunar íbúðaverðs og vaxta, er greiðslubyrði af lánum vegna kaupa á dæmigerðri íbúð á höfuðborgarsvæðinu í mörgum tilfellum minni nú en ef sama íbúð hefði verið keypt fyrir ári síðan.

Fólk sem kaupir íbúð til þess að leigja hana út og fjármagnar kaupin með íbúðaláni þarf því í mörgum tilfellum að greiða minna í vexti nú en það hefði gert fyrir ári síðan. Þrátt fyrir það hefur leiguverð haldið áfram að hækka undanfarið ár enda er skortur á leiguhúsnæði.

Meðalafsláttur af ásettu verði minnkar aftur

Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Það er mun minni hækkun en á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2017 þegar íbúðaverð hækkaði um 9,4%. Íbúðamarkaðurinn virðist vera að ná auknu jafnvægi eftir talsverðar sveiflur í verðþróun undanfarin misseri.

Meðalafsláttur af ásettu verði íbúða á höfuðborgarsvæðinu var 1,3 milljónir í apríl og hefur hann farið minnkandi síðan í desember þegar hann var 1,7 milljónir. Íbúðaviðskiptum yfir ásettu verði fjölgaði í apríl og hlutfall þeirra er nú nærri langtímameðaltali.

Verð dæmigerðrar íbúðar hækkar minna

Í mánaðarskýrslunni kynnir hagdeild Íbúðalánasjóðs nýjan mælikvarða á íbúðaverð, svokallaða vísitölu paraðra viðskipta, sem gagnlegt er að skoða samhliða vísitölu íbúðaverðs.

Á undanförnum tveimur árum hefur vísitala paraðra viðskipta á höfuðborgarsvæðinu hækkað samtals 5 prósentustigum minna en vísitala íbúðaverðs. Skýringin á þessum mismun gæti legið í fjölgun viðskipta með nýbyggingar eða íbúðir á verðmætum svæðum.

Byggingariðnaðurinn hefur haldið áfram að vaxa undanfarin misseri en þó hægar en áður. Mestur var vöxturinn árin 2015 og 2016 og á tímabili var 12 mánaða aukning í veltu í byggingariðnaði um 50% á raunvirði. Nú mælist vöxturinn um 12% á raunvirði.