Regluleg laun á vinnumarkaði á Íslandi hækkuðu um 74,6% frá fyrsta ársfjórðungi 2005 til fyrsta ársfjórðungs á þessu ári, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Þar kemur m.a. fram að laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu laun um 76,8% á tímabilinu en um 69,4% hjá ríkisstarfsmönnum og 68,3% hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Árið 2007 nam árshækkun launa 11% og dró úr eftir það. Árshækkun var minnst árið 2010 þegar laun hækkuðu að meðaltali um 3,5% á milli fyrsta ársfjórðungs 2009 og 2010. Árið 2011 jukust launahækkanir aftur og á fyrsta ársfjórðungi 2012 mældist ársbreyting 10,8%, samkvæmt Hagstofunni.

Hagstofan segir að launabreytingar megi að stærstum hluta rekja til samningsbundinna hækkana í kjarasamningum. Þannig hafi árshækkun frá fyrsta ársfjórðungi 2011 til jafnlengdar 2012 verið mun meiri en ársins á undan en í þeirri árshækkun komu til framkvæmda tvær samningsbundnar hækkanir. Þá hafi kjarasamningar undanfarinna ára jafnframt kveðið á um meiri almennar hækkanir á lægstu launatöxtum.

Þá hefur kaupmátt reglulegra launa á vinnumarkaðnum hér á landi aukist um 2,8% frá fyrsta ársfjórðungi 2005 til fyrsta árfjórðungs 2013 Þar af jókst kaupmáttur launa um 4,1% á almennum vinnumarkaði en minnkaði um 0,3% hjá ríkisstarfsmönnum og um 0,9% hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Kaupmáttur launa jókst á árunum 2006 og 2007 en stóð nokkurn veginn í stað árið 2008.  Árin 2009 og 2010 dró úr kaupmætti en frá árinu 2011 hefur hann aukist aftur.