Laun hækkuðu að jafnaðu um 3,7% milli mánaða í janúar síðastliðnum. Hækkunina má rekja til launahækkana samkvæmt kjarasamningum sem tóku gildi um áramótin. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar .

Sé horft til tólf mánaða hefur launavísitalan hækkað um 10,3%. Þar vega mest krónutöluhækkanir í apríl á síðasta ári og í janúar síðastliðnum sem kveðið var á í lífskjarasamningnum sem komu til framkvæmda árið 2019. Sambærilegir kjarasamningar voru gerðir á síðasta ári hjá meirihluta opinbers starfsfólks. Þeir samningar fólu í sér tvær launahækkanir vegna áranna 2019 og 2020, þar sem samningar höfðu verið lausir frá fyrri helmingi ársins 2019, ásamt kjarasamningshækkun þann 1. janúar síðastliðinn.

Stytting vinnutímans hefur einnig áhrif á launavísitöluna. Þann 1. janúar 2021 tók í gildi stytting vinnuvikunnar um 13 mínútur á dag á opinberum markaði hjá launafólki á mánaðarlaunum í dagvinnu. Áhrif vinnutímastyttingar í kjarasamningum frá því að hún kom fyrst fram í launavísitölu í nóvember 2019 til nóvember 2020 er metin um 0,8 prósentustig. Fyrsta mat af áhrifum vinnutímastyttingar í janúar í ár er um 0,4 prósentustig.

Leiðrétt: Upphaflega stóð að metin áhrif vinnutímastyttingar væru 0,4% í janúar en í frétt Hagstofunnar segir hún sé 0,4 prósentustig.