Laun hækka hratt um þessar mundir enda ríkir mikil spenna á vinnumarkaðinum, að sögn greiningardeildar Glitnis en launavísitala hækkaði um 0,4% á milli mars og apríl.

Á síðustu tólf mánuðum hefur launavísitalan hækkað um 8,4% og er það mikil hækkun í alþjóðlegum samanburði. ?Á móti hefur framleiðnivöxtur verið hraður og hefur það unnið á móti verðbólguáhrifum aukins launakostnaðar hjá fyrirtækjum," segir greiningardeildin.

Hækkun launa á milli mánaða heldur þó ekki í hækkun vísitölu neysluverðs. ?Slíkt er svo sem algengt og venjubundið þar sem hækkanir í kjarasamningum eru að mestu bundnar við janúarmánuð líkt og hér hefur verið," segir greiningardeildin sem segir betra að skoða þróun kaupmáttar með því að líta til þróunar launa og verðbólgu yfir lengri tíma.

Á síðustu tólf mánuðum hefur launavísitala hækkað 8,4%, eins og áður hefur komið fram en verðbólgan mældist 6,5%. Því hefur kaupmáttur launa hækkað um 1,9%.

?Dregið hefur verulega úr vexti kaupmáttar á þennan mælikvarða að undanförnu og reiknum við með því að samdráttur verði á síðustu mánuðum ársins þegar verðbólgan rís sem hæst," segir greiningardeildin sem spáir því að verðbólgan muni þá fara í um 9% og verður það að öllum líkindum hraðari vöxtur verðlags en launa á þeim tíma.