Launavísitalan í mars hækkaði um 0,3% og er 285,4 stig, segir í tilkynningu frá Hagstofu Íslands. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,6%.

Launavísitala fyrir helstu launþegahópa á fyrsta ársfjórðungi 2006 er 150,8 stig og hækkaði um 4,4% frá fyrri ársfjórðungi, segir í tilkynningunni.

Sambærileg vísitala fyrir opinbera starfsmenn og bankamenn er 153,7 stig og hækkaði um 4,2%. Vísitala fyrir almennan markað er 148,8 stig og hækkaði um 4,5%.

"Athygli er vakin á leiðréttingu á ársfjórðungsvísitölu fyrir helstu launþegahópa á fjórða ársfjórðungi 2005. Vegna mistaka var áður birt niðurstaða 144,1 stig en átti að vera 144,4 stig," segir í tilkynningu Hagstofunnar.

Launavísitala sem gildir við útreikning greiðslumarks fasteignaveðlána í maí 2006 er 6243 stig.