Samkvæmt vísitölu launa voru regluleg laun að meðaltali 2,6% hærri á öðrum ársfjórðungi 2008 en í ársfjórðungnum á undan.

Á sama tímabili hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 3,1% að meðaltali og laun opinberra starfsmanna um 1,6%.

Frá fyrra ári hækkuðu laun um 8,5%, 9,2% á almennum vinnumarkaði og um 6,7% hjá opinberum starfsmönnum.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands en þar var í morgun birt vísitala launa.

Þar kemur fram að frá fyrri ársfjórðungi hækkuðu laun verkafólks mest eða um 5,0% en laun sérfræðinga hækkuðu minnst, um 1,6%.

Laun verkafólks hækkuðu jafnframt mest frá öðrum ársfjórðungi 2007 eða um 11,2% en laun stjórnenda hækkuðu minnst, 7,5%.

Vísitala launa á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugrein

Þá mælist hækkun launa eftir atvinnugrein mest í samgöngum og flutningum, 4,7% frá fyrri ársfjórðungi en minnst mældist hækkun launa í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum, 1,4%.

Frá fyrra ári hækkuðu regluleg laun í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð mest eða um 10,7% en minnst mældist hækkunin í iðnaði, 8,5%.

Kjarasamningsbundnar hækkanir á tímabilinu

Á vef Hagstofu kemur fram að kjarasamningar landssambanda og stærstu aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem undirritaðir voru þann 17. febrúar síðastliðinn, komu að hlut til framkvæmda undir lok fyrsta ársfjórðungs.

Samkvæmt samningunum áttu launataxtar að hækka um 18.000 krónur frá 1. febrúar 2008, auk samkomulags um sérstaka launaþróunartryggingu sem felur í sér 5,5% lágmarkshækkun launa frá janúar 2007 til gildistöku nýrra samninga.

Samningarnir voru ekki endanlega samþykktir fyrr en 12. mars síðastliðinn og gætir því töluverðra áhrifa af framkvæmd þeirra í vísitölu launa á öðrum ársfjórðungi. Á tímabilinu komu einnig til framkvæmda kjarasamningar nokkurra stéttarfélaga við Samtök atvinnulífsins, f.h. einstakra aðildarfyrirtækja.

Í hækkun vísitölu launa á öðrum ársfjórðungi gætir einnig áhrifa samkomulags aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) við samninganefnd ríkisins um breytingar og framlengingu á fyrri kjarasamningum aðila.

Samkvæmt samkomulaginu hækkuðu laun um 20.300 króna frá 1. maí 2008.

Þá gætir einnig í hækkun vísitölunnar áhrifa samnings Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, f.h. Félags grunnskólakennara, um framlengingu og breytingar á kjarasamningi aðila, sem undirritaðir voru þann 28.apríl sl. Í samningnum var meðal annars kveðið á um 25.000 króna launahækkun þann 1. júní 2008.