Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 0,2% á milli mánaða, samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.

Árshækkun launavísitölunnar nam 8,6% í desember en á sama tíma í fyrra mældist tólf mánaða hækkun launavísitölunnar 9,8%. Hækkanir launa á árinu 2007 eru svipaðar og fyrir ári síðan, undantekning frá þessu er hækkun vísitölunnar í júlí á síðasta ári vegna kjarasamninga sem þá áttu sér stað.

Það er greiningardeild Kaupþings sem greinir frá.

Tólf mánaða meðalhækkun launa nam 9,2% á árinu 2007 samanborið við 9,5% á árinu 2006. Þaninn vinnumarkaður og lágt atvinnuleysi eru þeir þættir sem ýtt hafa undir áframhaldandi hækkanir launa á árinu 2007, að sögn greiningardeildarinnar.

Stefnir í kólnun

Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir að það dragi úr launahækkunum á árinu og að atvinnuleysi taki að stíga er líður á árið 2008. "Kólnun er framundan í hagkerfinu, hlutabréf hafa lækkað verulega frá áramótum á sama tíma hefur stöðnun komið fram á fasteignamarkaði. Þá hafa vaxtakjör farið hækkandi og dregið úr útlánum. Greiningardeild gerir ráð fyrir viðsnúningi nú á fyrsta fjórðungi ársins sem mun koma fram í hagtölum nú á fyrstu mánuðum ársins. Gera má því ráð fyrir að hratt dragi úr umsvifum í hagkerfinu nú í upphafi árs sem gæti allt eins ílengst fram á næsta ár," segir hún.