Laun landsmanna hækkuðu um 0,6% í febrúar og síðustu tólf mánuði nemur hækkunin um 8,6%, segir greiningardeild Glitnis.

Kaupmáttaraukningin á síðustu tólf mánuðum nemur 4,3% því neysluverð hefur hækkað um 4,1%. Kaupmáttaraukning hefur ekki mælst meiri síðan í aprílmánuði 2001, segir greiningardeildin.

Í þjóðhagsspá greiningardeild Glitnis er gert ráð fyrir að laun hækki í ár að meðaltali um 6,5% frá fyrra ári.

Kaupmáttur hefur aukist sex mánuði í röð. Hækkun launa í febrúar skýrist annars vegar af hækkun launa hjá sveitafélögum og vegur þar þungt sú ákvörðun launanefndar sveitafélaganna að leyfa hækkun launa ófaglærðra og leikskólakennara til samræmis við starfsmenn hjá Reykjavíkurborg.

Hins vegar skýrist hækkunin af almennri hækkun launa hjá fyrirtækjum og dreifist sú hækkun almennt á ólíka geira.

Miklar launahækkanir auka verðbólguþrýsting í hagkerfinu, enda hæpið að framleiðni vinnuaflsins aukist nægilega hratt til að stuðla gegn því.