Regluleg laun hækkuðu að meðaltali um 1,5% milli 1. ársfjórðungs 2003 og 1. ársfjórðungs 2004, skv. launakönnun Kjararannsóknarnefndar (KRN). Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 2,1%. Samkvæmt því rýrnaði kaupmáttur launa að meðaltali um 0,6%, en á þessu tímabili fékk einungis lítill hluti launafólks á almennum vinnumarkaði launahækkun skv. kjarasamningi þar sem kjarasamningar flests launafólks á almennum vinnumarkaði runnu út um sl. áramót.

Nýir kjarasamningar hafa tekið gildi frá 1. mars en þeir komu að mjög takmörkuðu leyti til framkvæmda á fyrsta ársfjórðungi, enda voru þeir ekki samþykktir fyrr en í lok marsmánaðar.

Laun kvenna hækkuðu um 1,6% en karla um 1,5%. Laun á höfuðborgarsvæði hækkuðu um 2,0% en laun utan höfuðborgarsvæðis um 0,7%.